Fréttir | 02. september 2016 - kl. 07:53
Áhyggjur af stjórn löggæslumála

Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir áhyggjum sínum yfir óviðunandi stöðu og fámenni lögreglunnar á Norðurlandi vestra en tvær klukkustundir liðu eftir að tilkynnt var um að bíll hefði farið í höfnina á Hvammstanga og þar til lögreglan mætti á svæðið. Þetta kemur fram í fundargerð byggðarráðs Húnaþings vestra. Sveitarstjóra hefur verið falið að gera greinargerð um stöðuna og fá fund með innanríkisráðherra.

Páll Björnsson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra og Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn, mættu á fund byggðarráðs síðastliðinn mánudag. Fóru þeir yfir og skýrðu mönnun og verkferla lögreglunnar þegar bifreið fór fram af bryggjunni á Hvammstanga miðvikudaginn 24. ágúst síðastliðinn. Karlmaður á sextugsaldri lést í slysinu.

Í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að lögreglan hafi verið á skotæfingu fyrir utan Sauðárkrók þegar útkallið barst. Páll Björnsson, lögreglustjóri, staðfestir við blaðið að engir lögreglumenn hafi verið á næstu starfsstöð sem er á Blönduósi. Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra segir viðtali við Fréttablaðið að nú sé mælirinn fullur. Gagnrýnin beinist þó ekki að lögreglumönnunum sjálfum heldur stjórnun löggæslumála.

„Við erum ekki að gagnrýna þá lögreglumenn sem eru að starfa að heldur erum við að gagnrýna stjórnun og það fjármagn sem fer í löggæslu,“ segir Guðný Hrund.

Aðspurð segist Guðný ekki geta metið hvort sein viðbrögð lögreglunnar hafi haft áhrif á mál mannsins sem fór í höfnina fyrir níu dögum. „Ég hef ekki trú á því, nei,“ svarar Páll um sama atriði. „En auðvitað eiga menn að fara á staðinn eins fljótt og mögulegt er. Það er ekki spurning,“ segir Páll í Fréttablaðinu í morgun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga