Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 08. september 2016 - kl. 11:18
Húnaþing vestra innleiðir eigið eldvarnareftirlit

Fyrr á þessu ári gerði Húnaþing vestra, ásamt öðrum sveitarfélögum, samkomulag við Eldvarnarbandalagið um að efla eldvarnir á heimilum og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnareftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnarbandalagið hefur gefið út. Undirbúningur að innleiðingunni stendur nú yfir en þann 1. október hyggst sveitarfélagið vera komið með eigið eldvarnareftirlit.

Sveitarfélögin Húnaþing vestra, Akureyri og Fjarðabyggð hyggjast öll innleiða eigin eldvarnareftirlit í samvinnu við Eldvarnarbandalagið og stendur útnefning eldvarnarfulltrúa nú yfir. Hlutverk þeirra er að framkvæma mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit í stofnunum sveitarfélaganna samkvæmt leiðbeiningum og gátlistum Eldvarnabandalagsins.

Eldvarnafulltrúarnir munu fá nauðsynlega fræðslu í september til að geta sinnt hlutverki sínu. Þá munu jafnframt allir starfsmenn sveitarfélaganna fá fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima og er unnið að skipulagningu fræðslunnar. Allir starfsmenn munu fá afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Slökkvilið sveitarfélaganna þriggja eru virkir þátttakendur í samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga