Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 11. september 2016 - kl. 13:08
Vill mannaða lögreglustöð á Hvammstanga

Sveitarstjórn Húnaþings vestra tekur undir áhyggjur byggðarráðs sveitarfélagsins af óviðunandi stöðu og fámenni lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Á sveitarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag voru ítrekaðar þær kröfur sem komið hafa fram, allt frá því að lögregluumdæmi voru sameinuð árið 2014, að á Hvammstanga verði mönnuð lögreglustöð til að sinna því stóra svæði sem sveitarfélagið nær yfir.

Í bókun sveitarstjórnar segir: „Viðbragðstími lögreglu þegar alvarleg atvik eiga sér stað er eins og dæmin hafa sannað með öllu óviðunandi og veldur því að hætta skapast og íbúar upplifa óöryggi. Við það verður ekki búið lengur. Til að hægt verði að manna lögreglustöð á Hvammstanga þarf að fjölga í lögregluliði umdæmisins alls og gerir sveitarstjórn Húnaþings vestra kröfu um að svo verði gert hið allra fyrsta“.

Tvær klukkustundir liðu
Í viðtali við Akureyri vikublað segir Elín Jóna Rósinberg, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra að íbúar upplifi mikið óöryggi vegna þess hversu langan tíma það tók lögreglu að koma þegar bíll fór í höfnina á Hvammstanga 24. ágúst síðastliðinn með þeim afleiðingum að ökumaður, sem var einn í bílnum, lést. Tvær klukkustundir liðu eftir að tilkynnt var um slysið þar til lögreglan mætti á svæðið. Lögreglan var við skotæfingar fyrir utan Sauðárkrók þegar útkallið barst og engir lögreglumenn voru á næstu starfsstöð sem er á Blönduósi.

„Lögregluumdæmið er stórt, bara okkar sveitarfélag nær til dæmis upp á Holtavörðuheiði, norður á Strandir að Stikuhálsi og að Gljúfurá í austri. Við gerum kröfu um lögreglustöð hér á Hvammstanga, en til þess að svo verði þarf innanríkisráðherra að breyta reglugerð um umdæmi lögreglustjóra og förum við öðru sinni að ræða það við ráðherra síðar í þessum mánuði. Nú erum við eina sýsla umdæmisins án lögreglustöðvar,“ segir Elín Jóna í viðtali við blaðið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga