Fréttir | 29. september 2016 - kl. 09:22
Jöfnuð um allt land

„Við viljum skapa aðlaðandi umhverfi þar sem ungt fólk getur hugsað sér að búa. Samgöngu og fjarskipti skipta þar höfuðmáli. Við lýsum yfir stuðningi við hugmyndir nefndar um samfélags- og atvinnuþróun á Vestfjörðum um eflingu byggða og atvinnulífs á svæðinu.“ Þetta kemur fram í ályktun sem nýafstaðið kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hefur sent frá sér.

Í ályktuninni segir einnig að fjölbreytt framboð menntunar sé hornsteinn byggðastefnu 21. aldar. Fjarnám sem fylgt sé eftir af öflugum símenntunarmiðstöðvum með útibúi í hverju byggðarlagi skuli allstaðar vera valkostur fyrir fólk. Kjördæmisráðið vill að dreifnámssetur fyrir framhaldsskólanema verði efld og framtíð þeirra tryggð.

Ályktun kjördæmisþingsins er eftirfarandi:

Við viljum að á Íslandi sé besta heilbrigðiskerfi í heimi og að það standist samanburð við heilbrigðiskerfið á Norðurlöndum. Það er ekki óraunhæft markmið fyrir efnaða þjóð en breyta þarf skipulaginu innan kerfisins og stórauka framlag ríkisins. Allir eiga rétt á gjaldfrjálsri úrvals heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag. 

Ráðast þarf í að efla brothættar byggðir og styðja íbúa til uppbyggingar, til dæmis með eflingu innviða, bættum samgöngum og fjarskiptum og miðlun raforku. Mörg brýn samgönguverkefni bíða okkur um allt kjördæmið. 

Við viljum skapa aðlaðandi umhverfi þar sem ungt fólk getur hugsað sér að búa. Samgöngur og fjarskipti skipta þar höfuðmáli. Við lýsum yfir stuðningi við hugmyndir nefndar um samfélags- og atvinnuþróun á Vestfjörðum um eflingu byggða og atvinnulífs á svæðinu. 

Fjölbreytt framboð menntunar er hornsteinn byggðastefnu 21. aldarinnar. Fjarnám sem fylgt er eftir af öflugum símenntunarmiðstöðvum með útibú í hverju byggðarlagi skal alls staðar vera valkostur fyrir fólk. Dreifnámssetur fyrir framhaldsskólanema skulu efld og framtíð þeirra tryggð. Efla þarf þær skólastofnanir sem fyrir eru á svæðinu, á öllum námsstigum. 

Ferðaþjónustan er sívaxandi atvinnugrein. Tryggja þarf sveitarfélögunum hlutdeild í arði greinarinnar til uppbyggingar á svæðunum. 

Landbúnaður skal styrktur og efldur þar sem byggðasjónarmið, gróðurverndarsjónarmið og hagkvæmni fara hvað mest saman. Stefnt skal að búsetugreiðslum og áframhaldandi gæðastýringu en horfið frá framleiðslutengdum greiðslum. Matvælaöryggi og heilbrigði dýrastofna skulu fá aukna athygli og efna skal til sérstakrar umfjöllunar um þau mál. 

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur alla tíð barist fyrir því að þjóðin njóti ávaxta auðlinda sinna og mun sú barátta halda áfram.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga