Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Fréttir | 29. september 2016 - kl. 14:55
Sér ekki fyrir sér fleiri álver

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sér ekki fyrir sér að álverum muni fjölga á Íslandi í framtíðinni. Þetta kom fram í sérstakri umræðu á Alþingi í gær um kostnað við ívilnanir til stóriðju. „Leiðin fram á við er ekki að stórfjölga stóriðjuverum á Íslandi. Ég sé ekki fyrir mér til dæmis að álverum muni fjölga á Íslandi í framtíðinni, ég sé það ekki fyrir mér,“ sagði Bjarni.

Hann sagði meðal annars nú væri ljóst að álver í Helguvík yrði ekki að veruleika. „Ég sé ekki að það álver sé að verða sér úti um rafmagn það virðist ekki vera að fæðast nein lausn á því og að öðru leyti þá sé ég ekki að það sé afl til að stefna á slík verkefni á næstunni og ég vísa þar meðal annars til rammaáætlunarinnar og annarrar eftirspurnar sem sem að við erum með fyrir framan okkur".

Áform um álver á Hafursstöðum
Í júní í fyrra undirrituðu sveitarfélögin á Norðurlandi vestra samstarfssamning við Klappir Development ehf. um uppbyggingu og rekstur á 120.000 tonna álveri á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði við Hafursstaði í Skagabyggð. Sveitarfélögin voru Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagafjörður.

Samningur sveitarfélaganna og Klappa var gerður í framhaldi þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 15. janúar 2014 um að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa  á Norðurlandi vestra með uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Samstarfið byggir einnig á sameiginlegri yfirlýsingu sveitarfélaganna og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 10. október 2014, um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa með nýtingu raforku sem framleidd er í sýslunni.    

Fram hefur komið í fréttum að áform um álver á Hafursstöðum séu nú í biðstöðu þar sem ekki hefur verið unnt að tryggja orku. Forsvarsmenn Klappa segjast vera þolinmóðir og að beðið sé eftir því að orkufyrirtækin telji sig geta selt næga orku. Það velti á ákvörðun stjórnvalda og hvernig þau ætli að haga framleiðslu raforku í framtíðinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga