Fréttir | 12. október 2016 - kl. 10:51
Vaktir ekki fullmannaðar vegna námskeiða

Svo gæti farið að vaktir lögreglumanna á Norðurlandi vestra verði ekki fullmannaðar á næstunni vegna námskeiða í Reykjavík. Vegna fjárhagsstöðu lögregluembættisins verða lögreglumenn sendir á námskeiðin á þeim tíma sem þeir eiga að vera að vinna á svæðinu svo ekki þurfi að borga þeim yfirvinnu. Þar af leiðandi er látið vanta á vaktirnar. Þetta kom fram á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra í gær en þar voru rædd lögreglumál í sveitarfélaginu.

Byggðarráð hefur óskað eftir upplýsingum um hvaða daga sé að ræða sem námskeiðin verða í Reykjavík og hvernig löggæsla verði skipulögð þá daga.

Byggðarráð tekur undir áhyggjur lögreglumanna á Norðurlandi vestra af stöðu löggæslumála í umdæminu sem fram komu í ályktun Lögreglufélags Norðurlands. Í ályktunni er lýst yfir miklum áhyggjum vegna stöðu löggæslumála á Norðurlandi vestra. Mannfæð, mikill niðurskurður og önnur utanaðkomandi áhrif séu þess valdandi að lögreglumenn telji sig ekki geta brugðist við innan eðlilegs útkallstíma ef til kemur innan svæðisins.

„Ítrekað hef­ur það gerst að lög­reglu­menn séu ein­ir á öllu lög­gæslu­svæðinu þ.e.a.s. á öllu Norður­landi vestra og hafi ekki aðra lög­reglu­menn að leita til. Þetta hef­ur margít­rekað gerst og er eng­an veg­inn viðun­andi,“ seg­ir í álykt­un­inni.

„Metnaður lög­reglu­manna hníg­ur í aðra átt sem og ábyrgð gagn­vart íbú­um svæðis­ins. Er það skoðun lög­reglu­manna inn­an LNV að rétt sé að íbú­um svæðis­ins sé kynnt hvernig staðan er.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga