Fréttir | 25. október 2016 - kl. 13:02
Starfsandinn hjá lögreglunni í „ólestri“.

Fréttablaðið segir frá því í dag að ólga sé innan lögreglunnar á Norðurlandi vestra vegna yfirstjórnar hennar á svæðinu. Blaðið birtir bréf sem félag lögreglumanna á Norðurlandi vestra hefur sent til Páls Björnssonar lögreglustjóra en í því segir að starfsandi sé í miklum ólestri vegna stjórnunarhátta við embættið. Óskað er eftir að brugðist verið við því sem fyrst og að tillögur að úrlausnum verið lagðar fram í síðasta lagi í dag. Bréfinu hefur ekki verið svarað.

Á fundi félags lögreglumanna á Norðurlandi vestra í upphafi mánaðarins var ákveðið að senda bréfið. Í því koma einnig fram áhyggjur félagsmanna að lögreglumenn séu farnir að leita sér að öðrum störfum, en þeir hafa undanfarið kvartað undan því að lögreglumenn séu of fáir í umdæminu.

Umræða um löggæslumál á Norðurlandi vestra hefur verið hávær að undanförnu og þá sérstaklega vegna þess að í ágúst síðastliðnum tók það lögregluna tvo tíma að bregðast við útkalli á Hvammstanga þegar bíll fór í höfnina og ökumaður lést. Lögreglufélagið á svæðinu og félag lögreglumanna á landsvísu hafa bæði sent frá sér ályktanir um ástandið og er helsta áhyggjuefnið hversu lögreglumenn eru fáir.

Frétt Fréttablaðsins má sjá hér.   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga