Fréttir | 27. október 2016 - kl. 09:31
Rjúpnaveiðitímabilið að hefjast

Rjúpnaveiðitímabilið hefst á morgun. Fyrirkomulagið verður með sama sniði og verið hefur undanfarin þrjú ár. Veiðidagar verða tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 28. október til 20. nóvember, þrír daga í senn, föstudagur til sunnudags. Sölubann verður áfram á rjúpum. Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um landið. Víða hafa landeigendur bannað rjúpnaveiði.

Í nýjasta tölublaði Gluggans auglýsa umráðamenn og landeigendur rjúpnaveiðibann í löndum sínum, meðal annars í landi Gautsdals og Merkur á Laxárdal og í landi Hvamms í Langadal. Öll rjúpnaveiði er bönnuð á Sauðadal nema með leyfi landeigenda. Þá er rjúpnaveiði bönnuð á Grímstungu- og Haukagilsheiðum nema með leyfi landeigenda.

Veiðimönnum stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi til rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra. Um er að ræða tvennskonar leyfi sem gefin verða út á jafnmörg svæði. Á svæði eitt er eignarhlutur sveitarfélagsins í Víðidalstunguheiði ásamt jörðunum Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Öxnatungu. Á svæði tvö er eignarhlutur sveitarfélagsins í Arnarvatnsheiði og Tvídægru. Fjöldi veiðimanna á veiðisvæðin er takmarkaður við fjórar byssur á hvert svæði á dag. Sjá má reglur Húnaþings vestra um rjúpnaveiðina hér.

Húnaþing vestra mun kæra veiðimenn án leyfis
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Guðnýju Hrund Karlsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra og segir hún að fyrirkomulag rjúpnaveiðinnar í ár sem í samræmi við útskurð forsætisráðuneytisins á dögunum sem bannar sölu á rjúpnaveiðileyfum í þjóðlendum í sveitarfélaginu. „Við bjóðum nú aðeins veiðileyfi á lönd í eigu sveitarfélagsins og undanskiljum þau almenningnum. Þetta er í samræmi við úrskurðinn. Allir með gilt veiðikort og skotvopnaleyfi geta keypt veiðileyfi hjá okkur og fá kort af svæðunum,“ segir Guðný Hrund í samtali við blaðið.

Guðný segir öllum heimilt að fara á þjóðlendur innan sveitarfélagsins en veiði á eignarlandi er háð leyfi. „Þeir veiðimenn sem munu veiða á okkar landareignum án leyfis verða kærðir umsvifalaust til lögreglu og gildir einu hvort þeir hafi veitt á svæðinu áður,“ segir Guðný Hrund.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga