Ljósm: skogur.is
Ljósm: skogur.is
Fréttir | 27. október 2016 - kl. 10:21
Átaksverkefni í skógrækt til að bæta búsetuskilyrði

Sex lögbýli eru með skógræktarsamning við Skógræktina í Húnaþingi vestra sem telja má nokkuð lítið miðað við stærð svæðisins. Átaksverkefni um skógrækt í Vestur-Húnavatnssýslu sem hleypt var formlega af stokkunum á dögunum á meðal annars að leita eftir viðhorfi bænda til núverandi stuðningskerfis í skógrækt og hvort því megi breyta svo það verði fýsilegra fyrir bændur.

Meiningin er að kanna hvort ekki megi skipuleggja skógrækt með bændum með það helst að leiðarljósi að hún styðji við hefðbundnar búgreinar. Á vef Skógræktarinnar segir að til þess séu margar leiðir færar. Skógur getur skýlt lambfé á vorin, bætt skilyrði til hvers kyns ræktunar, stýrt snjóalögum, búið til gjöful beitilönd, grætt upp mela og rofsvæði og þannig mætti áfram telja. Með sveigjanlegum skógræktarsamningum mætti beita skóg- og skjólbeltarækt með þeim hætti að hún styddi við sauðfjár- og kúabúskap og styrkti þar með búsetuskilyrði í héraði.

Búskaparskógrækt í Vestur-Húnavatnssýslu
Eins og fram hefur komið í fréttum fól Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Skógræktinni um sjón með eins árs átaksverkefni um skógrækt í Vestur-Húnavatnssýslu til að bæta skilyrði til búskapar og búsetu í dreifbýli. Verkefnið hófst formlega með athöfn á Melstað 24. október síðastliðinn. Þar handsalaði ráðherra verkefnið við Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, sviðstjóra skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar, og afhenti henni ráðherrabréf stílað á skógræktarstjóra. Viðstaddir voru fulltrúar bænda úr héraðinu, sveitarstjórnarfólks, skógræktarfólks og fleiri.

Góður árangur náðst með skógrækt
Áður en haldið var að Melstað heimsótti ráðherra ásamt fylgdarliði sínu skógarbændurna Friðrik Jóhannsson og Henrike Wappler sem stunda myndarlega skógrækt á Brekkulæk í Miðfirði með fram lífrænni sauðfjárrækt. Þau hafa náð mjög góðum árangri með skógrækt sína í héraði sem gjarnan hefur verið álitið lítt til skógræktar fallið. Til áburðar hafa þau notað kjötmjöl í stað tilbúins áburðar og því má segja að trén séu lífrænt ræktuð líka. Árangurinn er mjög góður. Sérstaklega þrífst lerki vel á Brekkulæk, er beint og fallegt, innan um eru fallegir asparreitir en einnig lifir sitkagreni vel á völdum stöðum og lofar góðu þegar það fer að ná sér á strik.

Leita eftir áliti bænda
Við athöfnina á Melstað sagði Sigrún Magnúsdóttir ráðherra meðal annars: „Verkefnið verður unnið þannig að Skógræktin leitar eftir áliti bænda á því hvort breyta þurfi núverandi stuðningskerfi í skógrækt svo að þeir sjái sér aukinn hag í þátttöku. Bændum býðst ráðgjöf sérfræðinga Skógræktarinnar sér að kostnaðarlausu þar sem farið verður yfir þá kosti sem eru í boði varðandi ofangreinda flokka skógræktar og hvernig þeir geta stutt við annan landbúnað og bætt skilyrði til búsetu. Þetta er þróunarverkefni og verða veittir til þeirra tímabundið auknir fjármunir, alls sjö milljónir á árinu 2017.“

Skógræktin hefur nú formlega tekið við keflinu. Umsjónarmenn verkefnisins fyrir hönd stofnunarinnar verða skógfræðingarnir Sæmundur Þorvaldsson sem hefur víðtæka reynslu af skipulagningu skjól- og hagaskóga með bændum á Vestfjörðum, og Johan Holst, svæðisstjóri Skógræktarinnar í Húnavatnssýslum. Tengiliður ráðuneytisins við verkefnið er Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga