HVE Hvammstanga. Ljósm. rikiseignir.is
HVE Hvammstanga. Ljósm. rikiseignir.is
Fréttir | 28. október 2016 - kl. 21:19
Nýtt fjölskylduherbergi á HVE Hvammstanga

Nýtt fjölskylduherbergi á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga var formlega tekið í notkun í vikunni. Framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í vor en herbergið á meðal annars að nýtast við lífslok. Frumkvæði að framkvæmdinni kom frá kvenfélögum á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar og hafa þau lagt til það fjármagn sem þurfti til að koma þessu verkefni í framkvæmd. 

Sagt er frá þessu á vef Norðanáttar. Þar kemur fram að alls hafi félögin lagt fram tæpar 700 þúsund til kaupa á búnaði í þetta nýja og vel búna herbergi. Herbergið var formlega tekið í notkun þann 26. október síðastliðinn að viðstöddum fjölda kvenfélagskvenna úr héraði.

Gefendum voru fluttar þakkir frá stofnuninni og boðnar léttar veitingar og skoðuðu viðstaddir síðan þessa glæsilegu vistarveru sem vonandi mun nýtast sjúklingum og aðstandendum þeirra í framtíðinni.

Kvenfélögin sem stóðu sameiginlega að verkefninu eru: Kvenfélögin: Ársól, Björk, Freyja, Iðja, Iðunn, Kvenfélag Staðarhrepps og Húsfreyjurnar á Vatnsnesi.

Á vef Norðanáttar má sjá myndir frá því þegar herbergið var tekið formlega í notkun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga