Fréttir | 03. nóvember 2016 - kl. 08:48
Fyrirlestrar í Húnabúð

Húnvetnskum fræðum og öðrum fræðum munu nokkrir fyrirlesarar hampa næstu miðvikudaga í Húnabúð, sem staðsett er í Skeifunni í Reykjavík. Fundirnir hefjast klukkan 17 og standa í 5-7 stundarfjórðunga. Aðgangseyrir er 1.000 krónur, kaffi innifalið. Fyrir fundunum standa Sögufélagið Húnvetningur, Húnvetningafélagið og U3A, sem stóð fyrir fyrirlestrum um húnvetnsk fræði í fyrravetur.

Miðvikudaginn 9. nóvember klukkan 17:
Sesselja Þórðardóttir  flytur fyrirlesturinn Sumir eru að segja að hún muni nú ílengjast þar Þar mun Sesselja fjalla um hjónin Sesselju Þórðardóttur og Pál Jónsson er bjuggu í Sauðanesi á öndverðri tuttugustu öld. Sauðaneshjónin þessi eru föðurforeldrar fyrirlesarans.

Miðvikudaginn 16. nóvember klukkan 17:
Bjarni Þ. Hallfreðsson flytur fyrirlesturinn Þróun byggðar á norðanverðu Vatnsnesi á 18. öld. Bjarni stundar nám í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Miðvikudaginn 23. nóvember klukkan 17:
Dr. Lára Magnúsardóttir flytur fyrirlesturinn Málaferli vegna ófeðraðs barns á 17. öld og heimildir um réttarfar. Lýsing: Þegar Guðrún Halldórsdóttir á Tindum í Garpsdal eignaðist drenginn Teit árið 1776 neitaði hún að gefa upp faðernið. Sögusagnir fóru af stað um að séra Einar Torfason prestur á Stað í Strandasýslu ætti barnið og sóknarmenn hans kröfðust þess við biskup að hann yrði sviptur kalli. Kirkjunnar mönnum var þó frekar umhugað um að Guðrún segði sjálf frá svo að hægt væri að skrifta henni og hún gæti tekið sakramenti, að öðrum kosti yrði hún svipt réttindum sínum í ríkinu. Í fyrirlestrinum verður sagt frá því hvernig þetta mál var rekið í réttarkerfi kirkju og konungs og talað um heimildir sem til eru um mál af sambærilegum toga.

Um fyrirlesarann: Lára Magnúsardóttir er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra þar sem hún stundar rannsóknir á heimildum um brot á lögum um trúmál og réttarkerfinu sem fylgdi þeim lögum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga