Fréttir | 03. desember 2016 - kl. 06:00
Jólatónleikar á Blönduósi í kvöld

Jólahúnarnir halda jólatónleika á Skagaströnd, Blönduósi og Laugarbakka núna 2., 3. og 4. desember. Einkunnarorð tónleikanna eru „samstaða og kærleikur“. Söngvarar koma frá Skagaströnd, Blönduósi og Húnaþingi vesta og hljóðfæraleikarar frá Hvammstanga. Kaffisala og jólaglögg verður í hléi á vegum kvenfélaganna, undir lifandi hljóðfæraleik.

Jólahúnarnir eru þau Skúli Einarsson (umsjón og skipulag), Daníel Geir Sigurðsson (bassi og tónlistarstjórn), Guðmundur Hólmar Jónsson (gítar), Elinborg Sigurgeirsdóttir (hljómborð), Sigurvaldi Í. Helgason (trommur og tæknistjórn) og Ellinore Anderson (lágfiðla). Gunnar Smári Helgason sér um hljóðblöndun.

Að sögn Skúla Einarssonar hafa Jólahúnarnir haldið jólatónleika í nokkur ár og hafa þeir sífellt verið í þróun. Hann segir að í ár hafi verið ákveðið, í fyrsta sinn, að fá söngvara víðar að og fjölga tónleikastöðum og hafi það mælst mjög vel fyrir. Skúli vonar að fólk verði duglegt að sækja viðburði í sinni heimabyggð.

Tónleikarnir verða á eftirtöldum stöðum:

Fellsborg, Skagaströnd, föstudaginn 2. desember, klukkan 21:00.
Félagsheimilinu, Blönduósi, laugardaginn 3. desember, klukkan 21:00.
Laugarbakka, Miðfirði, sunnudaginn 4. desember, klukkan 13:30 og 17:00.

Aðgangur: Fullorðnir kr. 2.500.
12 ára og yngri kr. 1.000.
Enginn posi á staðnum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga