Fréttir | 30. nóvember 2016 - kl. 13:19
Svör lögreglu ekki fullnægjandi

Sveitarstjóri Húnaþings vestra segir svör lögreglunnar á Norðurlandi vestra við fyrirspurn um störf lögreglunnar í umdæminu ekki fullnægjandi. Byggðarráð sveitarfélagsins hefur enn ekki fengið áhættumat sem gert hefur verið fyrir Norðurland vestra þrátt fyrir ítrekanir. Sveitarstjóra hefur verið falið að senda erindi til Ríkislögreglustjóra og óska eftir áhættumati fyrir Húnaþing vestra.

Á fundi byggðarráðs á mánudaginn var lagt fram tölvubréf Páls Björnssonar, lögreglustjóra, frá 18. nóvember síðastliðnum sem svar við fyrirspurn vegna slyss sem varð við höfnina á Hvammstanga 24. ágúst í sumar. Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri, sagði í Fréttablaðinu á mánudaginn að svörin frá lögreglunni væru ekki nægilega góð. „Við fengum svör við sumum spurningum okkar en ekki öllum,“ sagði Guðný Hrund.

Staðsetning lögreglumanna á Norðurlandi vestra hefur verið gagnrýnd undanfarið eftir slysið við Hvammstangahöfn en það tók lögreglu hálfa þriðju klukkustund að koma á vettvang. Lögreglumenn voru þá við skotæfingar við Sauðárkrók.

Tengdar fréttir:

Vaktir ekki fullmannaðar vegna námskeiða
Skýlaus krafa um mannaða lögreglustöð
Hvetur til endurskoðunar á ríkjandi skipulagi löggæslumála
Ekkert fjármagn til í aukavaktir
Vill mannaða lögreglustöð á Hvammstanga
Áhyggjur af stjórn löggæslumála
Banaslys í höfninni á Hvammstanga

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga