Fréttir | 05. desember 2016 - kl. 11:01
SA vilja fækka sveitarfélögum

Lagt er til að sveitarfélögum verði fækkað úr 74 í níu í nýrri skýrslu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins um stöðu og framtíð sveitarfélaga á Íslandi. Í skýrslunni segir að sameiningin gæti skapað svigrúm til að færa fleiri stór verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Lagt er til að Norðurland vestra, frá vestanverðum Tröllaskaga að Borðeyri, verði eitt sveitarfélag. Sagt er frá þessu á Vísi.is í dag.

Á Íslandi eru 74 sveitarfélög en 41 þeirra eru með færri en 1000 íbúa, þar af eru sex sveitarfélög með færri en 100 íbúa. Í skýrslunni er sýnt fram á slæma fjárhagsstöðu sveitarfélaganna almennt og sameining sögð leið til að ná fram alvöru hagræðingu í rekstri þeirra.

Tillögurnar miða að því að landinu yrði skipt í níu hluta. Suðurlandið væri eitt sveitarfélag frá Eyrarbakka að Höfn í Hornafirði. Þaðan tæki austurland við til og með Vopnafirði. Norðausturland frá Bakkafirði að Siglufirði væri eitt sveitarfélag og Norðvesturland frá vestanverðum Tröllaskaga að Borðeyri eitt. Vestfirðir væru eitt sveitarfélag og Vesturland frá Skarðsströnd og að höfuðborgarsvæði væri eitt. Reykjanesskaginn væri eitt sveitarfélag en höfuðborgarsvæðinu væri skipt í tvö sveitarfélög, þ.e. Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær væri stærsta sveitarfélag landsins og Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður það næststærsta.

Sjá nánar á visir.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga