Fréttir | 07. desember 2016 - kl. 11:42
Fjárhagsáætlun 2017 afgreidd með jákvæðri niðurstöðu

Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2017 var samþykkt á sveitarstjórnarfundi í gær með fjórum atkvæðum meirihlutans en fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Í áætluninni er gert ráð fyrir um 14,5 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu fyrir samstæðuna í heild. Áætlað er að tekjur vaxi um 85 milljónir miðað við árið 2015 og gjöld um 45 milljónir. Launahækkanir skýra að mestu hækkun gjalda. Skuldir munu haldi áfram að lækka og skuldaviðmiðið verður um 115% af tekjum í árslok 2017 en það var 143,3% í árslok 2015.

Fjárfestingar eru áætlaðar um 70 milljónir króna sem ætlaðar eru fyrst og fremst til viðhalds á eignum Blönduósbæjar. Stærsta einstaka framkvæmdin er áframhaldandi viðhald á Hnjúkabyggð 27. Gert er ráð fyrir 3% hækkun á gjaldskrám þó ekki á gjaldskrá leikskóla og skóladagheimilis. Útsvarshlutfall verður hámarksútsvar, þ.e. 14,52%.   

Í bókun forseta bæjarstjórnar segir að fjárhagsáætlunin hafi verið unnin af byggðaráði og hafi verið góð samvinna milli meirihluta og minnihluta um áherslur við fjárhagsáætlunargerðina. Sveitarstjórn þakkar byggðarráði og starfsmönnum Blönduósbæjar fyrir þá miklu vinnu sem liggur að baki fjárhagsáætluninni.

Minnihlutinn sat hjá
Fulltrúar J-lista lögðu fram bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar þar sem fram kom að þeir hygðust ekki standa að henni. Ástæður þess eru svo raktar í bókuninni, m.a. að niðurstaða ársins 2015 sýni að fjármálastjórn hjá Blönduósbæ hafi verið áfátt og ekki sjái að fullu fyrir endann á því hvernig muni takast á árinu 2016.

Þá segir í bókunni: „Lausatök eru á öllum rekstri og samskipti yfirstjórnar við deildir, forstöðumenn og ekki síst byggðasamlög eru ekki eins og best væri kosið. Greiningar á rekstarþáttum og kerfisbundin samanburður við sambærileg sveitarfélög er vart fyrir hendi á sama tíma og forstöðumenn stórra málaflokka eru beðnir um að sýna ýtrasta aðhald enda þótt ekki verði annað séð en þar sé verið að eyða minna fé heldur en í ýmsum nágrannasveitarfélögum okkar. Mannaráðningar og tilfærslur starfsmanna hafa farið fram án auglýsinga og ekki í samræmi við auglýsta starfsmannastefnu bæjarins né í samræmi við samþykktir um stjórnun sveitarfélagsins. Stór verkefni á sviði atvinnumála sem umtalsvert fé hefur fengist í frá ríkisvaldinu hafa setið á hakanum af óútskýrðum ástæðum nema að það sé vegna döngunarleysis forystumanna í héraði.“ Af þessum sökum sat minnihlutinn hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga