Fréttir | 09. desember 2016 - kl. 15:59
Ljósleiðari kominn inn á 117 heimili í Húnavatnshreppi

Búið er að setja ljósleiðara inn á 117 heimili í Húnavatnshreppi. Stefnt er að því að þeir sem komnir eru með ljósleiðara inn fyrir húsvegg verði flestir tengdir fyrir jól. Vinna við að ljósleiðaravæða sveitarfélagið hófst í sumar með lagningu stofn- og heimtauga á bæi og nú er unnið að því að tengja ljósleiðara saman og í brunnum.

Áætlað var að ljósleiðarvæða öll heimili í sveitarfélaginu á þessu ári en það tekst ekki. Helsta ástæða er sú að sveitarfélagið fékk á sínum tíma ekki aðgengilegt tilboð í allar lagnaleiðir. Gert er ráð fyrir að klára það sem eftir er í maí eða júní á næsta ári.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps ákvað í apríl á þessu ári að ljósleiðaravæða sveitarfélagið og fékk 84 milljón króna styrk í verkefnið frá fjarskiptasjóði. Stofnað var sérstakt félag utan um verkefnið sem fékk nafnið Húnanet ehf. Öllum íbúum bauðst ljósleiðari gegn gjaldi.

Húnavatnshreppur, Húnaþingi vestra og Blönduósbæ, voru á meðal þeirra sveitarfélaga sem fengu styrki til uppbyggingar ljósleiðara í sveitarfélögunum til að efla fjarskiptasamband í dreifðum byggðum sem markaðurinn sinnir ekki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga