Ljósmynd. Feykir.is
Ljósmynd. Feykir.is
Fréttir | 24. febrúar 2017 - kl. 15:27
Gáfu gamlan snjóbíl á safn

Björgunarsveitin Húnar hafa gefið Samgönguminjasafninu í Stóragerði í Skagafirði gamlan snjóbíl til varðveislu. Snjóbíllinn er kominn til ára sinna og ekki er lengur þörf fyrir hann hjá sveitinni. Undirvagn bílsins er af gerðinni M29 Weasel en ameríski bílaframleiðandinn Studebaker hannaði og smíðaði slíka undirvagna sérstaklega fyrir snjóakstur. Yfirbygging bílsins var smíðuð hér á landi. Samgönguminjasafnið þáði gjöfina með miklum þökkum.

Sagt er frá þessu á Feyki.is. Haft er eftir Gunnari Erni Jakobssyni hjá Húnum að nú væri sá gamli kominn á elliheimilið sitt og vonandi ætti honum eftir að líða vel á safninu.

Á Feyki.is vill Samgönguminjasafnið koma því á framfæri að það sé ómetanlegt þegar fólk hafi samband og sé með hluti, hvort sem það séu bílar, varahlutir eða hvers konar annað dót tengt samgöngusögunni, og sé tilbúið að gefa til varðveislu. Safnið þakkar Björgunarsveitinni Húnum kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga