Árni Bragason, landgræðslustjóri ásamt Valgerði Valsdóttur og Ingimundi Sigfússyni. Mynd: Landgræðsla ríkisins/fb.
Árni Bragason, landgræðslustjóri ásamt Valgerði Valsdóttur og Ingimundi Sigfússyni. Mynd: Landgræðsla ríkisins/fb.
Fréttir | 24. febrúar 2017 - kl. 21:14
Hlutu Landgræðsluverðlaunin 2016

Landgræðsluverðlaunin 2016 voru afhent í 26. sinn þann 1. desember síðastliðinn en þau eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Verðlaunahafar að þessu sinni voru annars vegar hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir á Þingeyrum og hins vegar Landgræðslufélag Hrunamanna. Það er Landgræðsla ríkisins sem veitir verðlaunin.

Hafa stundað stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum
Hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir og fjölskylda þeirra, hafa um langt árabil stundað stórfellda uppgræðslu á jörðum sínum, Sigríðarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu og Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Þessar jarðir liggja að sjó og á þeim eru stærstu sjávarsandar í Húnavatnssýslum. Sigríðarstaðir fóru í eyði vegna ágangs sands árið 1942 og árið 1958 var girt þar landgræðslugirðing og mestur hluti jarðarinnar gerður að landgræðslusvæði. Á yngri árum vann Ingimundur við að rækta stórt tún á örfoka og sandi orpnu landi á Sigríðarstöðum og þar hafa þau hjón staðið fyrir melgresis-, lúpínu og túnvingulssáningum og stundað trjárækt.

Á Þingeyrum hafa þau á sama hátt grætt upp stór landsvæði og unnið að skógrækt og munu uppgræðslusvæði á þessum tveimur jörðum vera vel á annað þúsund hektarar, misjafnlega langt á veg komin.

Síðastliðið haust áttu þau frumkvæði að endurheimt votlendis á um 30 hekturum í landi Þingeyra. Þeim er mjög umhugað um fjölbreytt fuglalíf og er endurheimt votlendis m.a. liður í að bæta búsvæði fugla. Á Þingeyrum hafa þau einnig lagt áherslu á að jörðin væri nytjuð til búskapar með sjálfbærum hætti og staðið fyrir merkum rannsóknum á sögu og menningu þessa forna höfuðbóls.

Viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu
Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu afhenti Landgræðsluverðlaunin 2016 fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Í ræðu sinni sagði Sigríður Auður meðal annars: “Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og einnig hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur öll og þau vekja athygli á viðfangsefninu landgræðslu og mikilvægi hennar í landinu.”

Nánar má lesa um Landgræðsluverðlaunin 2016 á vef Landgræðslu ríkisins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga