Fréttir | 28. apríl 2017 - kl. 15:09
Íþróttadagur 7.-10. bekkja grunnskólanna í A-Hún. og Húnaþingi vestra

Fimmtudaginn 27. apríl var íþróttadagur grunnskólanna fjögurra á svæðinu haldinn á Hvammstanga. Í ár var hann með nokkuð breyttu sniði þar sem ekki var um eiginlega keppni milli skólanna heldur dag fullan af alls kyns íþróttum og kynningum. Nemendur gátu valið um fjölbreytt verkefni og afþreyingu víðs vegar um bæinn. Má þar nefna að fara í tíma hjá landsliðskonunni Hólmfríði Magnúsdóttur sem var með á knattspyrnuæfingu, að keppa í skák og knattspyrnu á sparkvelli, fara á Selasetrið, fá kynningu á starfi Björgunarsveitarinnar Húna, sjálfsvarnaríþróttinni Jiu-jitsu og jóga. Þá var hægt að skola af sér svitann í sundlauginni í góðra vina hópi undir dúndrandi tónlist.

Að sjálfsögðu var boðið upp á frábærar veitingar svo að enginn var svangur þennan góða dag.

Í lok dags var diskótek áður en haldið var heim á leið.

Dagurinn gekk mjög vel og voru börnin okkar til fyrirmyndar í einu og öllu.

Sagt er frá þessu á Facebook-síðu Blönduskóla, en þar eru einnig fjölmargar myndir frá íþróttadeginum.

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga