Fréttir | 24. maí 2017 - kl. 11:15
Uppsögnin kom Kristjáni í opna skjöldu

Síðastliðinn fimmtudag var Kristjáni Þorbjörnssyni, öðrum yfirlögregluþjóninum hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, sagt upp störfum og staða hans lögð niður. Í pistli Kristjáns á Húnahorninu kemur fram að hann hafi unnið hjá lögreglunni á Blönduósi í 36. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segir Kristján að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu og enginn fyrirvari hafi verið á henni.

Gunnar Örn Jónsson tók við starfi lögreglustjóra hjá embættinu á Norðurlandi vestra 1. apríl síðastliðinn. Hann segir í samtali við Ríkisútvarpsins að verið sé að endurskipuleggja embættið og sé niðurlagning stöðunnar hluti af þeirri vinnu. Að öðru leyti segist hann ekki geta tjáð sig um mál einstakra starfsmanna.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir í samtali við Ríkisútvarpið að uppsögnin komi á óvart, enda gangi hún í berhögg við samkomulag sem gert var milli Félags yfirlögregluþjóna og þáverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, árið 2007 í aðdraganda skipulagsbreytinga á löggæslu. Þá hafi verið ljóst að nokkur fækkun yrði í hópi yfirlögregluþjóna. Hins vegar hafi ekki átt að grípa til uppsagna. Hann segir lögreglumenn afa ósátta við ákvörðunina.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga