Fréttir | 30. maí 2017 - kl. 10:20
Aðalfundur Vina Kvennaskólans

Aðalfundur Vina Kvennaskólans verður haldinn þriðjudaginn 30. maí næstkomandi klukkan 20 í Kvennaskólanum. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Gestur fundarins verður Jóhanna E. Pálmadóttir. Hún mun kynna Prjónagleðina sem haldin verður í annað sinn á Blönduósi 9. til 11. júní og segja frá Rannís styrk sem tengist Kvennaskólanum. Fundargestum verður boðið upp á kaffiveitingar að hætti Kvennaskólans. Félagsmenn Vina Kvennaskólans eru nú um 260 talsins. Aðalverkefnið framundan er, eins og á síðasta ári, að koma út sögu Kvennaskólans.

Í fundarboði frá Þórhöllu Guðbjartsdóttur, formanni Vina Kvennaskólans, kemur fram að í sumar verður Minjastofan opin sem áður frá 15. júní – 15. ágúst. Sama fyrirkomulag verður nú eins og síðastliðið sumar, þ.e. opið alla virka daga frá mánudegi til föstudags frá klukkan 13 til 17, en lokað um helgar. Starfsmaður Þekkingarsetursins á Blönduósi mun sjá um að sýna. Á sama tíma verður Vatnsdælu refillinn opinn og hægt að koma til að skoða og sauma. Eins og áður verður opnað fyrir hópa og einstaka gesti á öðrum tímum, en þá þarf að panta sérstaklega í síma Þekkingarsetursins, 452-4030 eða Textílsetursins, 452-4300. Aðgangseyrir er 700 krónur, innifalin er leiðsögn um Minjastofu, Vatnsdælu á refli, Kvennaskólahúsið og vinnustofur listamanna.

Athygli er vakin á því að fyrir þá sem hyggja á þátttöku á Prjónagleðina, þá hækkar skráningargjald eftir daginn í dag, 26. maí, þannig að þeir sem hafa áhuga þurfa að skrá sig sem fyrst. Vefur Prjónagleðinnar er www.prjonagledi.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga