Fréttir | 29. maí 2017 - kl. 12:48
Krefst þess að dómsmálaráðherra grípi inní

Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og fyrrverandi formaður félags yfirlögregluþjóna, segir brottvikningu Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á Blönduósi algjörlega fordæmalausa. „Ég mun ekki unna mér hvíldar fyrr en búið er að lagfæra þetta,“ sagði Geir Jón í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun og Vísir.is greinir frá.

Afar þungt hljóð var í Geir Jóni vegna málsins en Kristjáni var vikið frá störfum ári áður en hann átti að fara á eftirlaun, en lögreglumenn fara á eftirlaun við 65 ára aldur. Geir Jón krefst þess og ætlast til þess að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra grípi inní.

Geir Jón sagði í viðtalinu þetta algerlega fordæmalaust þrátt fyrir erfiðan rekstur lögreglunnar í gegnum tíðina. Fyrir því sé ástæða en þegar til stóð að stækka og þar með fækka lögregluembættum í landinu, þetta er í tíð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, hafi legið algerlega fyrir, það hafi verið fastmælum bundið, að enginn lögreglumaður myndi missa starf við þá sameiningu.

„Á það var lögð rík áhersla og ef yrðu of margir yfirmenn myndi það jafnast út þegar menn færu á eftirlaun. Þetta var samkomulag allra á milli og allir gengu frá borði með þennan skilning og þetta samkomulag. Og engum hefur látið það detta sér til hugar að víkja frá lögreglumanni fyrr en núna,“ segir Geir Jón sem á þeim tíma var formaður félags yfirlögregluþjóna og kom að þessum samningum ásamt fulltrúum lögreglustjóra og landsambands lögreglumanna,“ sagði Geir Jón á Bylgjunni í morgun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga