Mynd: Hveravellir.is
Mynd: Hveravellir.is
Fréttir | 28. júní 2017 - kl. 13:32
Uppbygging á Hveravöllum í óvissu

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að endurskoða þurfi í heild sinni matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum í Húnavatnshreppi. Ákvörðunin kemur Hveravallafélaginu ekki á óvart í sumum tilfellum en í öðrum tilfellum mikið á óvart. Félagið hefur ekki ákveðið hvort haldið verði áfram með undirbúning uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðafólk á Hveravöllum.

Matskýrslan sem þarfnast endurskoðunar var gerð á árunum 1995-1997 og fjallaði um mat á umhverfisáhrifum uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum á vegum Svínavatnshrepps og Torfalækjarhrepps. Í framhaldinu féllst skipulagsstjóri ríkisins á fyrirhugaðar framkvæmdir á Hveravöllum með tilteknum skilyrðum. Ekkert varð að framkvæmdunum þá.

Í júní 2016 óskaði sveitarfélagið eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar, í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, um hvort endurskoða þyrfti að hluta eða í heild matsskýrslu fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum áður en leyfi til framkvæmda yrði veitt til handa Hveravallafélaginu. Skipulagsstofnun tók málið fyrir þegar fullnægjandi gögn lágu fyrir og leitaði umsagna til Húnavatnshrepps, Ferðamálastofu, forsætisráðuneytisins, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að sú framkvæmd sem nú er fyrirhuguð sé talsvert frábrugðin þeirri framkvæmd sem undirgekkst umhverfismat á sínum tíma meðal annars varðandi stærð mannvirkja. Þannig sé nú gert ráð fyrir nær þreföldun á stærð ferðamannamiðstöðvarinnar. Áhrif hennar á landslag kunna að vera önnur en þeirrar framkvæmdar sem var til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum 1995-1997.

Í samtali við Morgunblaðið í dag kemur fram að Hveravallafélagið hefi ekki ákveðið hvort haldið verði áfram undirbúningi uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðafólk á Hveravöllum. „Sumt í þessum úrskurði kom okkur ekki á óvart, við áttum von á að þurfa að endurskoða ákveðin atriði, en annað kom mikið á óvart. Ekki síst þær röksemdir að búið sé að breyta lögum frá því umhverfismatið var gert. Af hverju var okkur ekki sagt strax frá því enda hefði með því verið hægt að spara okkur mikinn tíma og peninga? Á sama tíma eru áformaðar framkvæmdir og aðstaða fyrir ferðafólk á þessum fjölfarna stað í mikilli óvissu. Náttúran gæti liði fyrir það,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Hveravallafélagsins og ferðaþjónustufyrirtækisins Gray line sem stendur að félaginu ásamt Húnavatnshreppi, í Morgunblaðinu í dag.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar má sjá hér en kæra má ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur eru til 31. júlí næstkomandi.

Tengdar fréttir:

Áforma mikla uppbyggingu á Hveravöllum

Þjónustumiðstöð á Hveravöllum á að fara í umhverfismat

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga