Fréttir | 28. júní 2017 - kl. 14:51
Framkvæmdum við Blöndubrú enn ólokið

Byggðaráð Blönduósbæjar skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til áframhaldandi framkvæmda við Blöndubrú og þjóðveg 1 í gegnum Blönduós. Í fundargerð ráðsins segir að íbúar og bæjarfulltrúar hafi um árabil barist fyrir lagfæringum á Blöndubrú sem hafi farið af stað en sé ekki enn lokið. Mikilvægur þáttur í framkvæmdinni sé að tryggja öryggi gangandi vegfaranda með að byggja göngubrú yfir Blöndu.

Framkvæmdir hófust á Blöndubrú í ágúst í fyrra og átti þeim að verða lokið fyrir áramót. Verkið tafðist þar sem brúin reyndist verr farin en áætlað var. Steypta stéttin sunnan megin á brúnni var tekin burt og akreinin á brúargólfinu breikkuð um 60-70 sentímetra. Brúargólfið var brotið upp og nýtt steypt í staðin. Þá var sett nýtt vegrið sunnan megin á brúna. Stéttin norðan megin á brúnni stendur óbreytt.

Til stóð að vegurinn, þjóðvegur 1, beggja megin brúarinnar yrði breikkaður í samræmi við breikkun akbrautar á brúnni en það hefur ekki enn verið gert. Umferðin um Blöndubrú hefur aukist mikið undanfarin ár, í takt við aukna umferð á landsbyggðinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga