Fréttir | 28. júní 2017 - kl. 15:16
Skoða aðstæður fyrir gagnaver

Sveitarstjóri Blönduósbæjar átti fund á dögunum með fulltrúum frá Borealis Data Center en fyrirtækið er að leita eftir hentugri staðsetningu fyrir gagnaver þar sem nægt landrými er og gott aðgengi að raforku. Stefnt er að því að fulltrúar fyrirtækisins komi til Blönduóss í sumar til að skoða aðstæður. Þetta kemur fram í skýrslu sveitarstjóra sem lögð var fram á sveitarstjórnarfundi 13. júní síðastliðinn.

Samningar um byggingu gagnavers á Blönduósi voru nokkuð langt komnir fyrir nokkrum árum. Undirrituð var viljayfirlýsing við fyrirtækið Greenstone, sem var milliliður fyrir Morgan Stanley bankann sem hugðist hýsa sín rafrænu gögn í gagnaverinu. Vorið 2012 slitnaði upp úr viðræðunum og Greenstone ákvað að byggja gagnaver í Bandaríkjunum.

Mikil vinna hefur farið fram á Blönduósi við að kynna sveitarfélagið sem ákjósanlegan kost fyrir gagnaver. Búið er að eyrnamerkja í aðalskipulagi Blönduósbæjar rúmlega 270 hektara lóð undir slíka starfsemi. Nálægðin við Blönduvirkjun er mikill kostur og engin náttúruvá er á svæðinu.

Borealis var veitt framkvæmdaleyfi fyrir gagnaver í Reykjanesbæ árið 2014 á 21.000 fermetra lóð.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga