Blanda
Blanda
Fréttir | 29. júní 2017 - kl. 14:27
Ágæt veiði í húnvetnskum laxveiðiám

Miðfjarðará og Blanda eru með aflahæstu ám landsins sem af er sumri og kemur það líklega fáum á óvart. Samkvæmt vef Landsambands veiðifélaga hafa veiðst rúmlega 270 laxar í Miðfjarðará og gáfu síðustu sjö dagarnir um 100 laxa. Alls hafa 228 laxar veiðst í Blöndu og var vikuveiðin 102 laxar. Miðfjarðará er í fjórða sæti yfir aflahæstu ár landsins og Blanda er í því fimmta. Laxveiðin í Víðidalsá er komin í 92 laxa og var vikuveiðin 55 laxar. Vatnsdalsá er komin í 60 laxa og veiddust 44 laxar í ánni síðastliðna sjö daga.

Á vef Landsambands veiðifélaga segir að veiðitímabilið byrji víðast hvar ágætlega. Góður vatnsbúskapur sé í flestum ám og aðstæður góðar til veiða. Þar kemur einnig fram að svo virðist sem að töluvert af smálaxi sé að skila sér, hann sé vel haldinn og beri með sér að aðstæður á dvalarslóðum hafi verið góðar og gott fæðuframboð.

Á næstu dögum opna fleiri húnvetnskar ár, m.a. Hrútafjarðará og Svartá.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga