Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | Sameining A-Hún | 21. september 2017 - kl. 14:01
Beðið eftir ákvörðun Skagabyggðar

Þrjú sveitarfélög af fjórum í Austur-Húnavatnssýslu hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Skagabyggð er eina sveitarfélagið sem ekki hefur tilkynnt hvort það vilji sameinast Skagafirði eða Austursýslunni. Í fréttum Ríkisútvarpsins í dag er rætt við Þorleif Ingvarsson, oddvita Húnavatnshrepps um sameiningarmálin. Hann telur að með sameiningu verði til öflugt sveitarfélag, bæði í stjórnsýslu, atvinnumálum og öllu því sem snýr að verkefnum sveitarfélaganna.

Þorleifur segir að fljótlega gætu hjólin farið að snúast og að viðræðurnar verði teknar upp um leið og öll sveitarfélögin eru búin að taka afstöðu. Hann telur einnig að það verði eitthvað fundað, alveg sama hver niðurstaðan verði hjá Skagabyggð.

Þorleifur segir í fréttum Ríkisútvarpsins að hann telji hljóðið í íbúum svæðisins jákvætt hvað þessi mál varðar, án þess að það hafi verið kannað formlega. „En miðað við það sem maður heyrir þá held ég að menn séu jákvæðir fyrir því að þetta sé kannað.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga