Fréttir | 16. október 2017 - kl. 08:38
Fjölmörg verkefni hjá Þekkingarsetrinu

Fjölmörg verkefni eru í vinnslu hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi um þessa mundir og er sagt frá þeim á vef setursins. Í byrjun síðasta mánaðar hófst hagnýtt rannsóknarverkefni sem nefnist „Bridging textiles to the digital future“ en það er samstarfsverkefni Þekkingarsetursins og Textílsetursins. Í því felst skráning á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Vinum Kvennaskólans, Textílsetri Íslands og fleira í rafrænan gagnagrunn.

Þá verður sett upp vefsvæði þar sem munstrin verða aðgengileg fyrir textíllistamenn, hönnuði og nemendur á sviði textíls. Verkefnið er áætlað til þriggja ára og hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís í apríl á þessu ári.

Heimsóknir listamanna í skóla í A-Hún.
Eitt verkefna eru heimsóknir listamanna í skóla í Austur-Húnavatnssýslu haustið 2017 en það er afrakstur verkefnisins ,,Aukið samstarf listamanna/listamiðstöðva og fræðslustofnana á Norðurlandi vestra" á vegum SSNV. Markmiðin eru að efla samstarf milli listamiðstöðva, sem starfræktar eru á Blönduósi og Skagaströnd, við skólastofnanir á svæðinu. Einnig verður nemendum gefið tækifæri að kynnast fjölbreytileika listanna og lista frá ólíkum menningarheimum.  

Erlendum listamönnum boðið að dvelja í Textíllistamiðstöðinni
Textíllistamiðstöð í Kvennaskólanum hefur verið samstarfsverkefni Þekkingarsetursins og Textílsetursins síðan 2012. Samstarfsaðilarnir hlutu styrk frá Kulturkontakt Nord í mars 2016 til verkefnisins Nordic-Baltic Scholarship Program. Styrkur er veittur til tveggja ára og gerir þeim kleift að bjóða listamönnum frá Norðurlöndum og Eistnesku löndum að koma og dvelja í Textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum tvo mánuði í senn. Þrír listamenn hafa komið á vegum styrksins nú þegar: Baiba Osiite frá Lettlandi dvaldi í listamiðstöðinni í nóvember og desember 2016 og kenndi á námskeiði í silkimálun. Kerstin Lindström frá Sviðþjóð kom í júní og júlí og var með prjónagjörninginn, „Own your own time“ á Prjónagleði 2017. Päivi Vaarula frá Finlandi dvaldi í listamiðstöðinni í júlí og ágúst og kenndi námskeið í jurtalitun á Húnavöku.  Nýlega hefur verið auglýst eftir fjórða og síðasta styrkþega. 

Væntanlega eru tveir nemendur Håndarbejdes Fremmes UCC í Danmörku og dvelja þær í tvo mánuði í lok árs. Einnig er í vinnslu dvöl nemenda frá Concordia háskóla í Kanada, en hópurinn mun dvelja í listamiðstöðinni í júní 2018. Nemendur munu fá kennslu frá textílsérfræðingum í Kvennaskólanum, Ragnheiðar Bjarkar Þórsdóttur og Jóhönnu E. Pálmadóttur. 

Tímarit sem fjallar um verk listamanna sem ferðast til Íslands
Þekkingarsetur tekur þátt í verkefninu ArtEnVaff / The IceView. Það er tímarit um bókmenntir og listir sem fjallar um verk rithöfunda og listamanna, sem ferðast til Íslands, í sköpunarhugleiðingum. Tímaritið er óháð og ekki gefið út í hagnaðarskyni. Það miðlar reynslu listamanna af dvöl þeirra á Íslandi með viðtölum, myndum af listaverkum auk þess að birta ritverk þeirra. Verkefni er hugmynd Katie Brown, listakonu og rithöfundar. Þekkingarsetrið, Textílsetur Íslands og Nes listamiðstöð á Skagaströnd eru samstarfsaðilar verkefnisins, en það hlaut styrk frá Uppbyggingasjóði 2016 og 2017. Fyrsta tölublaðið kom út maí 2017. Önnur útgáfu er í vinnslu. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga