Fréttir | 17. október 2017 - kl. 15:55
Borgin flutt á Blönduós

Þórarinn Br. Ingvarsson, eigandi veitingastaðarins Borgarinnar, sem opnaður var á Skagaströnd í september árið 2014, ákvað að færa hann til Blönduóss. Þórarinn segist vilja vera nær þjóðvegi 1 og þess vegna hafi hann flutt staðinn á Hótel Blöndu við Aðalgötuna í gamla bænum á Blönduósi. Hann segir að mikill metnaður sé í eigendum hótelsins, miklar endurbætur hafi átt sér stað og það verði framhald á því verkefni. „Saman ætlum við að vinna að því að koma hótelinu rækilega á kortið.“

Þórarinn er borinn og barnfæddur Skagstrendingur og átti hann sér þann draum að opna eigin veitingastað í sinni heimabyggð. Sá draumur rættist 2014 en þá var aldarfjórðungur liðinn frá því hann flutti frá Skagaströnd. Þórarinn bjó í sjö ár í Danmörku þar sem hann vann ýmis störf í veitingageiranum, m.a. í Messecenter í Herning sem er stór sýninga- og ráðstefnuhöll. Eftir að hann flutti aftur til Íslands vann hann m.a. sem yfirkokkur á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit og Sel hóteli við Mývatn.

Þórarinn segir veitingasal hótelsins á Blönduósi hafa sérstaklega fallegt útsýni til vesturs yfir Húnaflóann og Strandafjöllin. Hann segir að þrátt fyrir flutninginn muni stefnan í matargerðinni ekki breytast mikið en þó eitthvað. „Lögð verður áhersla á ferskan fisk og hráefni úr héraði og svo tvistað með rest.“

Á Facebook síðu Borgarinnar má finna nánari upplýsingar um veitingastaðinn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga