Frá skotsvæði Markviss. Ljósm: FB/Skotf.Markviss
Frá skotsvæði Markviss. Ljósm: FB/Skotf.Markviss
Fréttir | 23. október 2017 - kl. 11:36
Deilt um framkvæmdir á skotsvæði Markviss

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfum þinglýstra eigenda jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á skotsvæðinu á Blönduósi. Þann 26. september síðastliðinn gaf Blönduósbær út leyfi vegna framkvæmda á skotsvæðinu og var það gefið út á grunni deiliskipulags fyrir svæðið sem sveitarstjórnin samþykkti 11. apríl 2017. Framkvæmdum er nú að mestu lokið og ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum fyrr en næsta vor.

Einkahlutafélagið Blomstra og Oddur Hjaltason, eigendur Hjaltabakka, kærðu til úrskurðarnefndarinnar bæði framkvæmdaleyfið og samþykktina. Var þess krafist að samþykktin yrði felld úr gildi, leyfið gert ógilt og framkvæmdir stöðvaðar á skotæfingasvæðinu þar sem fyrirhugað er að gera riffilbraut.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kæran sé meðal annars byggð á því sveitarstjórn hafi verið óheimilt að samþykkja hið kærða deiliskipulag þar sem það taki til svæðis utan sveitarfélagsins. Óásættanlega hávaðamengun stafi af skotsvæðinu sem geti fælt búfénað í landi kærenda. Þá sé óásættanlegt af öryggisástæðum að skotsvæðið sé á opnu svæði nálægt byggð og umferð bæði gangandi og ríðandi. Skurður á skotæfingasvæðinu muni leiða til óafturkræfra breytinga á landinu.

Af hálfu Blönduósbæjar er á það bent að bærinn hafi ráðstafað og skipulagt umrætt svæði í 86 ár án mótmæla frá eigendum Hjaltabakka. Því sé hafnað að stjórnsýslumörk sveitarfélagsins og Húnavatnshrepps séu óljós, enda hafi sveitarfélögin komið sér saman um mörkin, sbr. t.d. samþykkt aðalskipulag 1993-2013, 2010-2030 og svæðisskipulag 2004-2016. Blönduósbær hafi vandað til skipulagsferilsins, tekið tillit til umsagna eins og kostur hafi verið og bætt við mótvægisaðgerðum. Framkvæmdum við gerð og undirbúning riffilbrautarinnar sé að mestu/öllu lokið og sé ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum á svæðinu fyrr en næsta vor. Stöðvun framkvæmda nú þjóni því engum tilgangi.

Eigendur Hjaltabakka hafa nú höfðað mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra á hendur Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra, íslenska ríkinu, Skotfélaginu Markviss og til réttargæslu Blönduósbæ. Krafist er að stjórnvaldsákvörðun Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra frá 30. janúar 2017 þar sem Skotfélaginu Markviss var veitt leyfisbréf sem viðurkenndi og heimilaði æfinga- og keppnissvæði félagsins til 30. janúar 2027, verði felld úr gildi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga