Fréttir | 13. desember 2017 - kl. 09:23
Lawrence leikur Agnesi

Eins og margir vita er í bígerð að gera Hollywood-mynd byggða á bókinni Burial Rites eða Náðarstund eftir ástralska höfundinn Hannah Kent. Hún heillaðist af sögu Agnesar Magnúsdóttur sem tekin var af lífi fyrir að myrða Natan Ketilsson, bónda á Illugastöðum og Pétur Jónsson vinnumann árið 1828. Bókin var gefin út árið 2013 og hefur farið sigurför um heiminn og verið gefin út á meira en tuttugu tungumálum. Nú herma fregnir að hæst launaða leikkona heims, Jennifer Lawrence, muni leika Agnesi í myndinni. Sagt er frá þessu á vef bandaríska tímaritsins Variety.

Lawrence er ein skærasta stjarna Hollywood um þessar mundir en hún hlaut m.a. Óskarsverlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki árið 2012. Hún hefur verið tilnefnd til þrennra Óskarsverðlauna til viðbótar og hlotið fjölmörg verðlaun og tilnefningar á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum. Líklega er hún þekktust fyrir leik sinn í þríleiknum um Hungurleikana.

Burial Rites kom út árið 2013 eins og áður sagði en höfundur hennar Hannah Kent var 17 ára skiptinemi í Skagafirði þegar hún heyrði fryst söguna um Agnesi. Hún lagðist í mikla rannsóknarvinnu á lífi Agnesar sem endaði svo í umræddri bók. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar haustið 2014.

​Ríkisútvarpið segir frá því í dag að tökulið kvikmyndarinnar hafi sótt Húnaþing vestra heim nokkrum sinnum til þess að kynna sér aðstæður fyrir mögulegar tökur fyrir myndina. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa þau verið í Vatnsdalnum og Vatnsnesinu fyrst og fremst, en sagan gerist þar. Teymið furðar sig á því hversu lítið hafi breyst í umhverfinu síðan 1830, þegar sagan gerðist. 

Fréttin hefur verið uppfærð

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga