Fréttir | 18. desember 2017 - kl. 18:41
Fjárhagsáætlun Skagastrandar 2018 jákvæð um 12,7 m.kr.

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2018-2021. Rekstrarniðurstaða samstæðu er áætluð jákvæð um 12,7 milljónir króna fyrir árið 2018. Heildartekjur eru áætlaðar 595,8 milljónir, þar af eru skatttekjur 448,5 milljónir. Rekstrargjöld eru áætluð 593,1 milljón, þar af er kostnaður vegna launa áætlaður 228,8 milljónir. Fjármagnsliðir eru áætlaðir jákvæðir um 9,8 milljónir.   

Í sjóðstreymi áætlunar fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri samstæðu verði jákvætt um 70,6 milljónir króna. Samanlagðar fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar 198,5 milljónir. Stærstu fjárfestingaþættirnir í áætlun eru 70 milljónir vegna gerðar smábátahafnar austan Skúffugarðs og malbikun gatna fyrir 80 milljónir. Að teknu tilliti til fjárfestinga og fjármögnunarhreyfinga er áætlað að handbært fé lækki um 137,8 milljónir og handbært fé verði í árslok 526,5 milljónir.

Í fjárhagsáætlun áranna 2018-2021 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu öll árin.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga