Blöndulón
Blöndulón
Fréttir | 17. janúar 2018 - kl. 10:49
Útboð á veiðirétti á vatnasvæði Blöndu framan Blönduvirkjunar

Heiðadeild Veiðifélags Blöndu og Svartár auglýsir nú eftir tilboðum í silungsveiði á vatnasvæði veiðifélagsins sem er Blöndulón og þær þverár sem falla í lónið og Blöndu ofan Blöndustíflu. Í auglýsingu segir að ekki sé um magnveiði að ræða á svæðinu, heldur einstaka upplifun í ósnortnu og friðsömu umhverfi þar sem góðrar umgegni og veiðisiða sé krafist, svo sem að sleppa öllum ósárum fiski.

Tilboðsfrestur er til 31. janúar næstkomandi og skal skila tilboðum til formanns félagsins, Ægis Sigurgeirssonar, sem veitir allar nánari upplýsingar. Netfang Ægis er stekkjardalur@simnet.is og síminn er 896 6011.

Nánar um vatnasvæðið
Um er að ræða tvö svæði. Annars vegar svæði 1, (austan Blöndu) sem er hluti af Blöndulóni ásamt Galtará, Haugakvísl, Ströngukvísl og Herjólfslæk. Hins vegar svæði 2 (vestan Blöndu) sem er hluti af Blöndulóni ásamt Kúlukvísl, Seyðisá, Beljanda, Þegjanda og Stóralæk. Einnig er hægt er að gera tilboð í vatnasvæðið í heild sinni.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga