Fréttir | 17. janúar 2018 - kl. 13:00
Örnámskeið og foreldrafyrirlestur í boði USAH

Ungmennasamband Austur-Húnvetninga býður uppá frítt örnámskeið með Bjarna Fritz handboltamanni, í Félagsheimilinu á Blönduósi mánudaginn 5. febrúar næstkomandi klukkan 17-19. Örnámskeið Bjarna er úr námskeiði hans sem heitir Vertu óstöðvandi og er ætlað fyrir ungt fólk á aldrinum 12-15 ára. Námskeiðið fjallar um hugarþjálfun fyrir ungt íþróttafólk, hvernig hægt er að styrkja sálræna hluta þess og hvað skilur á milli íþróttafólks á hæsta stigi og allra hinn.

Á námskeiðinu kemur Bjarni inn á hvað þurfi að gera til að ná árangri, hugarfarið, berjast gegn mótlæti, óttann við mistök, andlegan styrk, að vera leiðtogi, ná stjórn á huganum og truflunum og vera besta útgáfan af sjálfum sér.  

Bjarni Fritzson er sálfræðimenntaður fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í handknattleik, þjálfari U-20 ára landsliðsins og meistaraflokks ÍR í handknattleik og rekur sjálfstyrkingarfyrirtækið Út fyrir kassann.

Takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið og því þarf að skrá þá sem hafa áhuga á að koma. Senda þarf tölvupóst á steinamagg@gmail.com fyrir miðvikudaginn 31. janúar næstkomandi þar sem fram koma upplýsingar um nafn og kennitölu barns og nafn og símanúmer foreldris.

Þá verður foreldrafyrirlestur með Bjarna Fritz sama dag, 5. febrúar, klukkan 20 í Félagsheimilinu á Blönduósi. Fjallað verður um hvernig foreldrar geta haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd barnanna sinna, hvernig þeir geti aðstoðað börnin við að ná betri árangri og hvernig núvitund getur eflt börn. Frítt er á fyrirlesturinn og allir er velkomnir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga