Þorrablót er góð skemmtun.
Þorrablót er góð skemmtun.
Fréttir | 15. febrúar 2018 - kl. 09:16
„Ábyrgast að aflýsa þorrablótinu“

Óánægju gætir meðal gesta sveitaþorrablótsins, sem fram fór síðastliðinn laugardag, að því skuli ekki hafa verið frestað vegna veðurs. Margir lentu í miklum hremmingum á leiðinni heim eftir blótið þar sem veðrið var snælduvitlaust og færð erfið. Þorrablótið, sem fram fór í Félagsheimilinu á Blönduósi, heppnaðist aftur á móti mjög vel og var mikil ánægja með allt sem þar fór fram.

Eins og flestir vita hefur ýmislegt gengið á í veðrinu undanfarnar vikur og daga og var spáin ekki góð fyrir síðustu helgi. Veðrið var þó alveg þokkalegt fyrri part laugardagsins en versnaði þegar líða tók á daginn og var lögreglan búin að loka vegum á svæðinu áður en þorrablótið byrjaði. Um kvöldið var veðrið orðið snælduvitlaust og ekkert vit að vera á ferð. Þorrablótið er fyrir marga eina skemmtun ársins í sveitinni og því viðbúið að margir séu tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að mæta.  

Nína Margrét Pálmadóttir er ein þeirra sem mætti á þorrablótið ásamt manni sínum og eldri dóttur þeirra hjóna. Hún segir að blótið hafi verið frábær skemmtun, skemmtinefndin hafi staðið sig með sóma, maturinn fullkominn og hljómsveitin frábær. Hún veltir því aftur á móti fyrir sér hvort það sé ábyrgt að halda svona mannamót miðað við veðurspána. „Ekki veit ég í hvaða höndum það ætti að vera að aflýsa svona skemmtun. Vissulega var það mín ákvörðun að mæta enda leggur maður allt á sig til að missa ekki af hreppaþorrablóti. Þar að auki var söngvari hljómsveitarinnar með mér í för og ekki um annað að ræða en að koma honum á skemmtunina,“ segir Nína og bendir á að þeim hafi verið boðin gisting á Blönduósi en þar sem hún var með fullan bíl af fólki hefði hún ekki getað annað en keyrt fólkið heim að Akri um nóttina.

Ferðin frá Blönduósi og að afleggjaranum að Akri tók þrjá klukkustundir. Við tók einn og hálfur tími að komast inn í hús. Nína segir einungis röð tilviljana hafi ráðið því að enginn hafi orðið úti á leiðinni en þau hafi þurft að ganga um 300 metra með stórhríð í fangið. „Það má þakka þrekvirki frænda míns Pálma Gunnarssyni að ekki fór verr. Hann bar fólkið heim á bakinu, yfir skafla og á móti stórhríð, segir Nína og viðurkennir að það var ekki glóra að fara út í þetta veður. Hún veit um fleiri sem lentu í hremmingum þessa nótt m.a. eina konu sem sé með kalbletti í andliti og á höndum. Henni hefði fundist ábyrgast að aflýsa þorrablótinu vegna veðurs.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga