Fréttir | 15. febrúar 2018 - kl. 11:36
135 milljónir til Brúar lífeyrissjóðs

Sveitarfélög í Húnavatnssýslum þurfa að greiða samtals um 135 milljónir króna vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga. Jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera markaðarins hafði í för með sér breytingar á lögum um LSR og samþykktum Brúar. Sveitarfélögum var gert skylt að gera annars vegar upp halla A-deildar og hins vegar greiða inn í Brú vegna framtíðarskuldbindingar auk greiðslna inn í varúðarsjóð.

Þann 19. september 2016 gerðu Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarasamband Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga, hins vegar, með sér samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Markmið samkomulagsins var að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, að aldurstenging réttinda yrði grundvallarregla kerfisins og að lífeyristökualdur skyldi hækkaður til að stuðla að sjálfbærni kerfisins. Miðuðu breytingarnar að því að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Fól samkomulagið í sér að breytingar skyldu gerðar á málefnum A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar. Meðal annars skyldi ávinnsla lífeyrisréttinda í A-deildum LSR og Brúar verða aldurstengd en ekki jöfn og lífeyristökualdur skyldi hækkaður úr 65 árum í 67 ár. Við framangreindar breytingar skyldu réttindi virkra sjóðfélaga tryggð með sérstökum framlögum til sjóðanna af hálfu launagreiðenda, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga.

Íslenska ríkið og sveitarfélögin í landinu þurfa því að leggja sjóðnum til skilgreind framlög sem byggja á tryggingafræðilegu mati á framtíðarskuldbindingum þeirra vegna lífeyrisauka, sem skuli mynda svokallaða lífeyrisaukasjóði. Í framangreindu samkomulagi er einni kveðið á um að framlög launagreiðenda í sérstaka varúðarsjóði sem er ætlað að styðja við lífeyrisaukasjóð A-deildar LSR og Brúar lífeyrissjóðs.

Húnaþing vestra greiðir mest
Samkvæmt fundargerðum sveitarstjórna Húnaþings vestra, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Skagastrandar skuldbinda þessi fjögur sveitarfélög sig til þess að greiða samtals 32.870.585 krónur í jafnvægissjóð A-deildar Brúar, 92.009.740 krónur í lífeyrisaukasjóð A-deildar Brúar og 9.866.408 krónur í varúðarsjóð A-deildar Brúar. Samtal eru þetta framlög að fjárhæð 134.746.733 krónur.

Uppgjör sveitarfélaga í Húnavatnssýslum gagnvart Brú lífeyrissjóði skiptist þannig:

Húnaþing vestra skuldbindur sig að greiða 15.465.217 kr. framlag í jafnvægissjóð A-deildar Brúar, 53.347.626 kr. framlag í lífeyrisaukasjóð A-deildar Brúar og 5.739.297 kr. framlag í varúðarsjóð A-deildar Brúar. Samtals eru þetta framlög að fjárhæð 74.552.140 kr.

Blönduósbær skuldbindur sig að greiða 9.459.282 kr. framlag í jafnvægissjóð A-deildar Brúar, 12.907.966 kr. framlag í lífeyrisaukasjóð A-deildar Brúar og 1.388.678 kr. framlag í varúðarsjóð A-deildar Brúar. Samtals eru þetta framlög að fjárhæð 23.755.926 kr.

Skagaströnd skuldbindur sig að greiða 7.403.121 kr. framlag í jafnvægissjóð A-deildar Brúar, 20.515.566 kr. framlag í lífeyrisaukasjóð A-deildar Brúar og 2.174.851 kr. framlag í varúðarsjóð A-deildar Brúar. Samtals eru þetta framlög að fjárhæð 30.093.538 kr.

Húnavatnshreppur skuldbindur sig að greiða 542.965 kr. framlag í jafnvægissjóð A-deildar Brúar, 5.238.582 kr. framlag í lífeyrisaukasjóð A-deildar Brúar og 563.582 kr. framlag í varúðarsjóð A-deildar Brúar. Samtals eru þetta framlög að fjárhæð 6.345.129 kr.

Ekki leggja sambærilegar upplýsingar fyrir á vef Skagabyggðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga