Fréttir | 19. febrúar 2018 - kl. 14:35
101 ökumaður kærður fyrir hraðakstur

Lögreglan á Norðurlandi vestra kærði 101 ökumann um helgina fyrir of hraðan akstur. Sá sem ók hraðast mældist á 151 kílómetra á klukkustund í Blönduhlíð í Skagafirði en þar er hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund. Alls hafa 466 umferðarlagabrot verið kærð í umdæminu sem af er ári og eru 392 kærur vegna hraðaksturs. Sagt er frá þessu á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Þar segir að um liðna helgi hafi veður verið gott og mikil umferð enda vetrarfrí víða í skólum. Lögreglan hafði því í mörgu að snúast og eins og svo oft áður voru það umferðarmálin sem komu mest við sögu.

Framundan hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra er öflugt umferðareftirlit og eru ökumenn beðnir um að virða hámarkshraða á vegum og sýna tillitssemi í umferðinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga