Afstöðumynd af framkvæmdum. Ljósm: vegagerdin.is
Afstöðumynd af framkvæmdum. Ljósm: vegagerdin.is
Fréttir | 21. febrúar 2018 - kl. 11:46
Samgöngubætur í Austur-Húnavatnssýslu

Til stendur að byggja nýjan 8,5 km langan stofnveg frá Hringvegi austan Blönduóss að Þverárfjallsvegi, skammt sunnan við brú á Laxá. Frá nýjum vegi verður byggður um 3,3 km langur vegur til norðurs, með nýrri brú yfir Laxá, og inn á núverandi Skagastrandarveg norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð. Heildarlengd vega og brúar er um 11,8 km. Á samgönguáætlun 2015-2019 var 50 milljón króna fjárveiting til framkvæmdanna árið 2017 og 150 milljón krónur á þessu ári. Á öðru tímabili langtímaáætlunar, eða 2019-2022, var 1.300 milljón króna fjárveiting.  

Framkvæmdaraðili er Vegagerðin sem ber ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Á vef Vegagerðarinnar eru auglýst drög að tillögu að matsáætlun vegna þessara framkvæmda í Refasveit og um Laxá í sveitarfélögunum Blönduósbæ og Skagabyggð.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Norðvesturlandi, auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Að framkvæmdum loknum verður nýi 8,5 km langi stofnvegurinn hluti Þverárfjallsvegar sem fær nýtt vegnúmer, þ.e.a.s. Þverárfjallsvegur (73). Nýi 3,3 km langi vegurinn, með nýrri brú á Laxá, verður að framkvæmdum loknum hluti Skagastrandarvegar (74).

Drög að tillögu að matsáætlun eru kynnt á heimasíðu Vegagerðarinnar, http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsaetlun/ samkvæmt reglugerð 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Almenningur getur gert athugasemdir við áætlunina og er athugasemdafrestur til 5. mars 2018. Athugasemdir skal senda með tölvupósti til soley.jonasdottir@vegagerdin.is eða til Vegagerðarinnar, Miðhúsavegi 1, 600 Akureyri.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga