Fréttir | 15. mars 2018 - kl. 15:40
Hérna! Núna! - Lista- og menningarráðstefna

Stefnt er að því að halda tveggja daga lista- og menningarráðstefnu á Blönduósi fyrir listamenn og frumkvöðla úr skapandi greinum, dagana 27. og 28. apríl næstkomandi. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir listamenn á Norðurlandi vestra til að koma saman, kynna sig og deila reynslu. Verkefnið er samstarfsverkefni Þekkingarsetursins og Ferðamálafélags A-Hún. og hlaut nýverið styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Verkefnastjóri er Melody Woodnutt en hún er fyrrverandi forstöðumaður NES listamiðstöðvar á Skagaströnd. Ráðstefnan, sem kallast Hérna! Núna!, verður haldin í gömlu kirkjunni við Brimslóð á Blönduósi frá klukkan 9 til 15 báða dagana.

Í tengslum við ráðstefnuna verður haldið sex kennsluklukkustunda námskeið þar sem miðlað verður þekkingu sem nýtist í verkefna- og viðburðastjórnun. Fjallað verður m.a. um áætlanagerð í tengslum við viðburðahald á borð við tónleika, listasýningar, ráðstefnur eða önnur skapandi verkefni. Þá verður fjallað um notkun Adobe InDesign við gerð auglýsinga- og kynningarefnis. Námskeiðið hentar öllum sem hafa áhuga á að starfa á vettvangi afþreyingar, skemmtunar og upplifunar, t.d. í leikhúsum, listagalleríum og við ferðaþjónustu. Fyrirhugað er að kenna á mánudögum og fimmtudögum í apríl. Reiknað er með að nemendur taki þátt í ráðstefnunni þar sem þeir fá að spreyta sig og nýta þá nýju þekkingu sem þeir afla sér á námskeiðinu. Greitt verður fyrir þá vinnu.

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á tsb@tsb.is eða hafa samband við skrifstofu Þekkingarsetursins í Kvennaskólanum í síma 452 4030 í síðasta lagi fyrir 25. mars næstkomandi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga