Fréttir | 17. apríl 2018 - kl. 12:19
Hækkun sekta þarf að bíta og hafa tilætluð áhrif

Það sem af er árinu hefur Lögreglan á Norðurlandi vestra sektað 1.700 ökumenn fyrir umferðarlagabrot og þá einkum hraðakstur. Sektirnar í síðasta mánuði voru alls 900 í öllu umdæminu. Í Morgunblaðinu í dag segir Stefán Vagn Stefánsson yfirlögreglustjóri á Norðurlandi vestra að hann vænti þess að boðuð hækkun á sektum fyrir brot á umferðarlögum sé það mikil að hún bíti og hafi tilætluð áhrif.

Stefán Vagn segir að umferðareftirlitið hafi verið eflt til muna. Með breyttu skipulagi hjá embættinu sé uppsetningin þannig að tveir menn gangi vaktir hvor á móti öðrum og séu fyrst og síðast úti á vegunum við eftirlit, og að reynslan af því sé góð. „Umferðaróhöppum og slysum í umdæminu hefur fækkað um 18% frá áramótum til dagsins í dag, miðað við sömu mánuði í fyrra. Það er mikilvægur árangur en hér hafa oft orðið mjög alvarleg atvik, svo sem útafakstur og veltur því víða liggja vegir hátt,“ segir Stefán Vagn.

Hann segir einnig að markvisst umferðareftirlit nái til allra daga og verði eflt sérstaklega þegar ástæða þykir til. Nefnir hann sérstaklega ferðahelgar á sumrin t.d. þegar fjöldasamkomur og bæjarhátíðir eru haldnar á Norðurlandi.

Þá segir Stefán Vagn það mikilvægt að hækkun sekta fyrir umferðarlagabrot verði fylgt eftir með kynningu svo fólki sé alvara málsins ljós. „Fyrir unga ökumenn er það mikill skellur að borga 100 þúsund krónur af sumarlaununum í sekt og allir vilja sleppa við slík,“ segir Stefán Vagn í Morgunblaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga