Fréttir | 20. apríl 2018 - kl. 16:05
Færri gestir í Upplýsingamiðstöð ferðamála í Húnaþingi vestra

Upplýsingamiðstöð ferðamála í Húnaþingi vestra, sem rekin er á Selasetri Íslands á Hvammstanga, hefur tekið á móti 1.679 gestum fyrstu þrjá mánuði ársins og er það 14% fækkun frá sama ársfjórðungi í fyrra þegar tekið var á móti 1.958 gestum. Sagt er frá þessu á vef Selaseturs Íslands. Þar kemur fram að 10% færri keyptu sig inn á safnið milli ára á sama tímabili.

Gestum fækkaði á milli ára alla þrjá mánuði ársfjórðungsins, um 17% í janúar, 16% í febrúar og 13% í mars. Á vefnum segir að fækkun gesta megi að hluta til skýra með veðurfari og færð á vegum í janúar og febrúar, en því sé ekki til að dreifa í mars.

„Langsamlega fæstir heimsækja Selasetrið á fyrsta og fjórða ársfjórðungi, svo þessi fækkun hefur lítið að segja um þróun heildarfjölda gesta á ársgrundvelli – en þessar tölur kunna að vera vísbending um ákveðna kólnun í ferðaþjónustunni, sérstaklega á svokölluðum jaðarsvæðum,“ segir á vef Selaseturs Íslands.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga