Fréttir | 26. apríl 2018 - kl. 07:00
Hérna! Núna! Lista- og menningarráðstefna

Haldin verður lista- og menningarráðstefna á Blönduósi um helgina fyrir listamenn og frumkvöðla úr skapandi greinum. Tilgangurinn er að styðja við skapandi anda og hjálpa þátttakendum að sjá hvað er um að vera á svæðinu...Hérna og Núna. Verkefnið er samstarfsverkefni Þekkingarsetursins og Ferðamálafélags A-Hún. og hlaut nýverið styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Verkefnastjóri er Melody Woodnutt en hún er fyrrverandi forstöðumaður NES listamiðstöðvar á Skagaströnd. Ráðstefnan, sem kallast Hérna! Núna!, verður haldin í gömlu kirkjunni við Brimslóð á Blönduósi.

Í sumar ætlar Melody að vinna að lítilli bók sem ber heitið Hérna! Núna! þar sem komið verður á framfæri litum, sköpun og listrænu lífi á Norðurlandi vestra. „Ég vona að samveran með ykkur á viðburðinum 27. og 28. apríl muni hjálpa mér með vinnslu á þessari litlu listamanna útgáfu – Ég er viss um að það er mikið af sögum og fólki sem þarf að kynna,“ segir Melody í kynningu um ráðstefnuna.

Hérna! Núna!
Gamla Kirkjan, Brimslóð, Gamla Bænum á Blönduósi.
Föstudaginn 27. apríl klukkan 18:00-21:30.
Laugardaginn 28. apríl klukkan 11:00-16:30 + sýning klukkan 17-19.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga