Fréttir | 22. maí 2018 - kl. 15:09
Góður rekstrarafgangur hjá Húnaþingi vestra

Sveitarfélagið Húnaþing vestra var rekið með 228 milljón króna afgangi í fyrra samkvæmt nýsamþykktum ársreikningi þess fyrir árið 2017. Árið 2016 nam rekstrarafgangurinn 149 milljónum króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 217 milljónir, samanborgið við 132 milljónir árið 2016. Skuldahlutfall er 53% samanborið við 56% árið 2016 en miðað er við að þetta hlutfalla sé ekki hærra en 150%. Fjárfestingar á árinu 2017 námu 109 milljónum króna, þær stærstu voru breyting á íþróttahúsi, áframhaldandi hitaveituframkvæmdir, vinna við skóla- og frístundasvæði ásamt grunnskóla og gatnagerð.

Í bókun sveitarstjórnar Húnaþings vestra frá 19. maí síðastliðnum þar sem ársreikningurinn var samþykktur segir að staða sveitarfélagsins sé góð og í jafnvægi. Fjármagn ætti því að vera til áframhaldandi framkvæmda eins og stækkun grunnskólans og endurnýjun á hitaveitu. Þessi góða staða sé ekki sjálfgefin og þakkaði sveitarstjórn stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir aðhald og skynsemi í rekstri á árinu 2017.

 

Skrifað af: Ragnar Z Guðjónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga