Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 25. maí 2018 - kl. 13:32
Brýnasta verkefnið er stækkun grunnskólans

Stækkun grunnskólans er brýnasta verkefnið í Húnaþingi vestra, að því er fram kemur í viðtölum við oddvita framboðanna tveggja í sveitarfélaginu á kosningavef Ríkisútvarpsins. Listarnir tveir sem í framboði eru fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á morgun eru B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna og N-list Nýs afls. Þetta eru sömu listar og buðu fram fyrir fjórum árum. Þá fékk N-listi fjóra menn kjörna en B-listi þrjá.

Magnús Magnússon, sóknarprestur, er oddviti N-listans og segir hann í viðtalinu að mikil áhersla hafi verið lögð á ábyrga fjármálastjórn á kjörtímabilinu. Stærsta verkefnið á komandi kjörtímabili verði að byggja við grunnskólann enda sé hann of lítill. Þorleifur Kar Eggertsson, oddviti B-listans, tekur í sama streng og segir grunnskólann of lítinn, stækkun hans sé mál sem allir séu sammála um að ráðast þurfi í.

Magnús segir einnig í viðtalinu að engin stór ágreiningsmál séu innan sveitarstjórnar og þannig hafi orkan ekki farið í átök heldur frekar í að byggja upp, enda flest mál samþykkt samhljóða. Samgöngumálin er fólki í Húnaþingi vestra hugleikin enda er vegurinn um Vatnsnes ekki í góðu standi. Þorleifur segir að undanfarin tuttugu ár hafi verið þrýst á ríkið að bæta úr. Það verði gert áfram. Magnús segir að leita þurfi allra leiða til að bæta veginn bæði fyrir íbúa og ferðamenn.

Sjá nánar á kosningavef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga