Grunnur að gagnaveri steyptur. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Grunnur að gagnaveri steyptur. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 25. júní 2018 - kl. 09:28
Viðræður í gangi við raforkuframleiðendur

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, fyrirtækisins sem vinnur við að reisa gagnaver á Blönduósi, segir í Fréttablaðinu í dag að viðræður séu nú í gangi við raforkuframleiðendur um kaup á orku og að þær viðræður gangi ágætlega. Rætt er við Steinunni Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, sem segir Blönduós afar heppilega staðsetningu fyrir núverandi flutningskerfi til að taka á móti nýjum stórnotanda.

„Flutningsgetan er með því betra sem gerist á landinu. Blönduós er góður staður fyrir aukna notkun til að nýta betur þá innviði sem eru til staðar í kerfinu í dag. Almennt getum við sagt að ef horft er til 30 megavatta notkunar á svæðinu þá þurfi ekki að styrkja meginflutningskerfið þar sem núverandi innviðir geti tekið við þeirri aflaukningu,“ segir Steinunn í samtali við Fréttablaðið í dag.

Björn segir starf fyrirtækisins geta haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf á svæðinu þar sem þjónustuaðilar í héraði muni hafa nokkur umsvif í kringum gagnaverið. „Það verður að segjast að vinnuafl á hvert megavatt er nokkuð hátt í gagnaverum en einnig verður nokkuð af útvistuðum verkefnum sem fyrirtæki taka að sér. Einnig erum við með heimaverktaka sem reisa húsin enda markmiðið einnig að skila ábata til samfélagsins,“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið í dag.

 

Skrifað af: Ragnar Z Guðjónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga