Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 20. júlí 2018 - kl. 09:31
Íbúafjölgun á Blönduósi sem af er ári

Íbúum Blönduóss heldur áfram að fjölga og eru þeir nú orðnir 930 talsins í lok 2. ársfjórðungs 2018. Um síðustu áramót var íbúafjöldi Blönduóss 890 talsins og nemur því fjölgunin um 40 íbúa á hálfu ári. Íbúum Skagastrandar fækkar aftur á móti um 30. Um síðustu áramót voru þeir 480 en voru í lok júní 450. Íbúafjöldi í Skagabyggð og Húnavatnshreppi hefur ekki breyst frá áramótum en alls búa 90 í fyrrnefnda sveitarfélaginu og 380 í því síðarnefnda. Íbúum Húnaþings vestra fækkar um 10 íbúa, fjöldinn fer úr 1.190 um áramótin niður í 1.180 í lok júní.

Þessar tölum má finna á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að í lok 2. ársfjórðungs 2018 bjuggu alls 353.070 manns á Íslandi, 180.420 karlar og 172.650 konur. Landsmönnum fjölgaði um 2.360 á ársfjórðungnum eða um 0,7%. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 225.210 manns en 127.860 utan þess.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar er heildarfjöldi íbúa í Húnavatnssýslunum tveimur í lok 2. ársfjórðungs 3.030 talsins, 1.545 karlar og 1.495 konur, og er heildarfjöldinn sá sami og um síðustu áramót. Hlutfall erlendra ríkisborgara í heildarfjöldanum er 7,4% og er það hæst í Blönduósbæ 10,8% en lægst í Skagabyggð þar sem engir erlendir ríkisborgarar búa. Í Húnaþingi vestra búa 7,6% erlendir ríkisborgarar, á Skagaströnd 4,4% og í Húnavatnshreppi 3,9%.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga