Fréttir | Sameining A-Hún | 15. ágúst 2018 - kl. 13:25
Vilja halda áfram viðræðum um sameiningu

Hreppsnefnd Skagabyggðar hefur tilnefnt að nýju fulltrúa í sameiningarnefnd sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Dagný Rós Úlfarsdóttir og Magnús Björnsson eru áfram í nefndinni en Karen Helga Steinsdóttir kemur ný inn í stað Vignis Sveinssonar fráfarandi oddvita hreppsins. Dagný Rós, oddviti hreppsins segir í fréttum Ríkisútvarpsins í dag að vilji sé til að halda áfram viðræðunum. Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps, segir einni í samtali við Ríkisútvarpið í dag að sveitarstjórnin hafi ekki rætt málið formlega en það verði gert á næstu vikum. Hann segir að það liggi nokkurn veginn fyrir að hún vill halda áfram viðræðunum.

Halldór G. Ólafsson, oddviti Skagastrandar, tekur í sama streng, málið hafi ekki verið rætt formlega en miðað við stefnuskrár framboða fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar sé mikill vilji að halda áfram.

Þá er rætt við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra á Blönduósi í frétt Ríkisútvarpsins og segist hann vera mikill sameiningarsinni. Hann vill efla sveitarstjórnarstigið en það verði ekki gert öðruvísi en með sameiningum. Byrjað verði á fjórum sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu og síðan leiði framtíðin í ljós hvort verði af frekari sameiningum, til dæmis við Sveitarfélagið Skagafjörð.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga