Frá Blönduósi.
Frá Blönduósi.
Fréttir | 19. september 2018 - kl. 16:17
Blönduósbær vill taka þátt í tilraunaverkefni

Blönduósbær ætlar að sækja um þátttöku í tilraunaverkefni Íbúðarlánasjóðs um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Tilraunaverkefnið var auglýst nýverið og snýr að því að leita leiða til þess að bregðast við þeim mikla húsnæðisvanda sem ríkir víðsvegar á landsbyggðinni. Verkefnið tekur mið af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að stuðla skuli að eflingu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Einnig tekur það mið af stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi þann 11. júní síðastliðinn þar sem m.a. er kveðið á um markmið um fjölgun íbúða á svæðum þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar uppbyggingu í sveitarfélögum. Húsnæðisáætlun sveitarfélags er grundvallarforsenda fyrir þátttöku í verkefninu.

Horft er til þess að 2-4 sveitarfélög taki þátt í tilraunaverkefninu og að það nái að fanga mismunandi áskoranir á ólíkum landsvæðum. Þannig geta þær lausnir sem verkefninu er ætlað að móta nýst á sem breiðustum grunni.

Íbúðalánasjóður hefur óskað eftir þátttöku sveitarfélaga í þessu tilraunaverkefni og er umsóknarfrestur 30. september næstkomandi.

Tengd frétt:

Tilraunaverkefni í húsnæðismálum á landsbyggðinni

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga