Fréttir | 15. október 2018 - kl. 12:02
Forkynning deiliskipulagstillögu fyrir hluta jarðarinnar Flatnefsstaðir á Vatnsnesi

Selasetur Íslands á Hvammstanga fékk á þessu ári styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir nýjan sela- og náttúruskoðunarstað á Flatnefsstöðum á Vatnsnesi. Styrkurinn fékkst vegna vinnu við deiliskipulag og hönnun á aðkomuvegi, bílstæðum, göngustígum, pöllum og fleira. Vatnsnes er þekkt selaskoðunarsvæði og með því að fjölga selaskoðunarstöðum er markmiðið að dreifa álagi ferðaþjónustu á náttúruna.

Jörðin Flatnefsstaðir er staðsett utarlega á vestanverðu Vatnsnesi í Húnaþingi vestra, en í gegnum jörðina liggur Vatnsnesvegur. Flatnefsstaðir hafa verið í eyði í marga áratugi og eru aðeins tóftir sjáanlega þar sem bæjarhúsin stóðu undir hlíðinni austan Vatnsnesvegar. Svæðið er ekki viðkomustaður ferðamanna en þykir tilvalið til selaskoðunar og því er verið að skipuleggja það sem selaskoðunarstað.

Selasetrið hefur látið vinna deiliskipulagstillögu fyrir hluta jarðarinnar og er skipulagssvæðið um 90 hektarar að flatarmáli. Skipulagsgögnin samanstanda af tveimur skipulagsuppdráttum og greinargerð frá Landslagi ehf. ásamt fornleifaskýrslu.

Skipulagsgögnin hanga uppi í þjónustuanddyri ráðhússins að Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga til 17. október næstkomandi og geta hagsmunaaðilar og allir þeir sem vilja kynna sér gögn skipulagsins skoðað þau þar. Ábendingar verða að hafa borist fyrir 18. október 2018 á netfangið skrifstofa@hunathing.is.    

Gögnin eru einnig aðgengileg á vef Húnaþings vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga