Plastmengun í hafinu.
Plastmengun í hafinu.
Fréttir | 15. október 2018 - kl. 14:30
Gera skýrslu um losun örplasts

Starfsmenn sjávarlíftæknisetursins BioPol á Skagaströnd vinna nú að því að taka saman skýrslu um losun örplasts fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Markmiðið er að safna saman upplýsingum um losun örplasts hér á landi. Það á við um hversu mikið örplast berst til sjávar, hverjar eru helstu uppsprettur þess og eftir hvaða leiðum það berst til sjávar. Út frá því á að forgangsraða aðgerðum til að draga úr losun örplasts hérlendis. Sagt var frá þessu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag.

Það kom fram BioPol hefur tekið sýni vikulega úti fyrir Skagaströnd frá því í vor eftir að einn starfsmanna fyrirtækisins greindi örplast í sýnum sem tekin voru í öðrum tilgangi. Fyrirtækið var síðar fengið til að vinna skýrslu fyrir umhverfisráðuneytið. Slíkar rannsóknir hafa átt sér stað annars staðar á Norðurlöndum en ekki hérlendis hingað til.

Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol, segir í samtali við Ríkisútvarpið að vinnan snúi að því að skoða helstu áhættuþætti, það er að segja hvaðan örplast berst til sjávar. Þar hefur ekki síst verið vísað til slits á bíldekkjum í sambærilegum rannsóknum. Hann segir að skýrslu um verkefnið verði skilað til ráðuneytisins um miðjan næsta mánuð.

Vikulegri sýnatöku fyrirtækisins hefur verið þannig háttað að háfi er stungið niður á 20 metra dýpi og síðan tekinn upp hægt og rólega. Síðan eru lífræn efni síuð frá og rannsakað hvaða örplast verður eftir. Halldór segir að verkefnið sé í vinnslu og draga þurfi lærdóma af því, bæði um aðferðir sem eru notaðar við sýnatöku og úrlestur úr gögnum. Starfsmenn BioPol hafa verið í samskiptum við sérfræðinga hjá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands um aðferðir svo allir þeir sem stunda slíkar rannsóknir noti samanburðarhæfar aðferðir. Næstu skref eru að samþætta það sem Íslendingar eru að gera við það sem vísindamenn á Norðurlöndum eru að fást við.

Sjá nánar á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga